„Í þessu riti sjáum við ljóslifandi myndir af samstöðu og seiglu, hugviti og hugrekki. “
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, úr formála bókarinnar.
„Í þessu riti sjáum við ljóslifandi myndir af samstöðu og seiglu, hugviti og hugrekki. “
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, úr formála bókarinnar.
Vönduð 416 blaðsíðna bók með ljósmyndun og stuttum frásögnum af atburðum á Reykjanesi frá byrjun árs 2020 fram á haust 2024. Bókin verður fáanleg í gegnum vefverslun á sérstöku forsölu verði á næstu vikum. Skráðu þig hér að neðan ef þú vilt fá tölvupóst þegar þar að kemur. Hakaðu við póstlista ef þú vilt fá upplýsingar um verkefnið Reykjanes vaknar í framtíðinni.
Reykjanes vaknar
Markmiðið með Reykjanes vaknar verkefninu er að skjalfesta í ljósmyndir jarðhræringarnar á Reykjanesi og áhrif þeirra á mannfólk, mannvirki, náttúru og byggð. Þó að ljósmyndarinn leggi metnað sinn í að vitna sem stærstan hluta sögunnar þá mun svo viðamikil saga vart sögð af einum manni. Þannig er verkefnið í raun sýn eins manns í gegnum linsu myndavélar, innsýn utanaðkomandi áhorfanda fremur en heildstætt yfirlit yfir atburðina. Þegar þessi orð eru rituð spannar verkefnið níu eldgos á Reykjanesi, jarðhræringar, rýmingar, varnargarða, mannvirki, rafmagnsleysi og vatnsleysi, fólk og dýr, sorg og gleði, von og vonleysi, dugnað, áræðni, úrræðasemi og íslenska þrautseigju. Í dag eru alls yfir 70 þúsund ljósmyndir og myndbönd af atburðunum á Reykjanesi í safninu sem myndað er að frumkvæði ljósmyndarans í samvinnu við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og fleiri neyðaraðila. Aðal hvatinn á bakvið verkefnið er að safna heimildum um þessa merku og mikilvægu tíma í sögu landsins. En það er ekki nóg ða safna myndefninu heldur er ekki síður mikilvægt að koma því fyrir sjónir almennings. Ýmislegt er í bígerð eða hefur þegar verið gert til að gera það að veruleika. Á menningarnótt í Reykjavík 2024 fór upp fyrsta sýningin úr safninu með fókusinn á Grindavík og Grindvíkinga frá rýmingu Grindavíkur fram að sýningardegi. Enn fremur er í vinnslu yfir 400 blaðsíðna ljósmyndabók sem kemur út í byrjun október ásamt stærri ljósmyndasýningu á torginu fyrir utan tónlistarhúsið Hörpu í tengslum við ráðstefnuna Björgun 2024. Að auki hafa glesfsur úr verkefninu verið nýttar af viðbragðsaðilum og öðrum til kynningar, rýnivinnu og þjálfunar. Verkefnið hófst á íbúafundi í Grindavík í janúar 2020 og stendur enn yfir og engin leið að segja hvenær því lýkur.
Um ljósmyndarann
Sigurður Ólafur Sigurðsson, eða Siggi Sig eins og fleiri kannast við hann, er ljósmyndari að mennt og atvinnu og hefur í einn og hálfan áratug ljósmyndað leit, björgun og neyðarstörf á Íslandi. Á þessum tíma hefur hann sinnt verkefnum fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg, Almannavarnir, Rauða krossinn, slökkvilið, Neyðarlínuna og fleiri neyðaraðila. Gefið út tvær bækur, haldið og tekið þátt í fjölda sýninga, hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir myndir af björgunarstörfum og haldið fyrirlestra með ljósmyndum frá störfum neyðaraðila hérlendis og erlendis. Samhliða verkefnum tengdum neyðaraðilum hefur hann unnið fjölda hefðbundnari ljósmyndaverkefna fyrir innlend og erlend fyrirtæki. Siggi hefur verið félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi í 34 ár, starfaði hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg um árabil og sinnti þar meðal annars ritstjórn tímarits um björgunarmál, menntun björgunarfólks og stjórnun neyðaraðgerða ásamt ýmsum verkefnum tengdum leit, leitarstjórn, ferðamennsku og fleiru. Árið 2012 fór Siggi svo að starfa í fullu starfi við ljósmyndun og hefur gert það síðan. Það er í raun samansuða þessara tveggja ráðandi þátta í bakgrunni hans sem er undirstaða verkefnisins Reykjanes vaknar.
Þakkir
Þó að vinna ljósmyndarans að baki slíku verkefni sé mikil þá væri hún til lítils án aðstoðar og velvildar annarra sem ber að þakka. Þið öll sem hafið lent fyrir fram linsuna, þið öll sem hafið gefið mér ábendingar og látið vita þegar eitthvað markvert er að gerast, allir neyðaraðilarnir sem hafa umborið mig, tekið mig með og aðstoðað á svo margan hátt, verktakar, íbúar, yfirvöld, vísindamenn, Almannavarnir, Landsbjörg og svo mætti lengi telja. Takk öll. Þetta verkefni er ekki unnið í tómarúmi og það er eins mikið ykkar og það er mitt.